Af hverju tek ég myndir?

12. Oct 2015

Ég er ekki með eitt svar við þessari spurningu, listinn minn er endalaust langur og það bætast ástæður við daglega. Áhugi minn á ljósmyndun hófst þó ekki á bakvið myndavélina, heldur hófst hann sem skoðandi eða áhorfandi á verk annarra ljósmyndara, og þá sérstaklega þeirra sem ljósmynduðu hvali og aðrar sjávarskepnur. Ég hef alltaf verið heilluð af sjónum og því lífi sem þar býr. Sem táningur fékk ég ljósmyndabækur um sjóinn og hvali sem voru ljósmyndaðar af t.d. Chuck Koosman sem er þekktur fyrir að taka “fine art” myndir og tekur þar með þessar náttúrulífsmyndir á annað “level” að mínu mati sem ég lærði að lesa í og skilja. Fljótlega fór þó ástríðan að berast yfir í aðrar tegundir af ljósmyndun og ég fór að skoða hina og þessa ljósmyndara, stefnur og stíla. Smekkurinn þróaðist út frá þessu og ég myndaði mér mun sterkari skoðanir á því sem ég sá. Ég ákvað að ég þyrfti að prófa að taka upp myndavélina og sjá hvort ég gæti séð eitthvað á bakvið linsuna sem væri þess vert að fanga. Og það reyndist rétt. Ég heillaðist frá fyrsta “klikki”. Þetta opnaði nýja veröld, ég fann hvernig ég opnaði augun á gjörsamlega nýjan hátt, það var eins og ég væri að sjá upp á nýtt, ég fór að taka eftir hlutum sem ég hafði aldrei tekið eftir áður. Það var rosalega gaman að finna nýja leið til þess að tjá sig, að finna leið til þess að tala án orða, að leyfa fólki að lesa þig í gegnum það sem þú sérð, finnur og skapar.

Ég tek myndir til að muna.

Ég tek myndir til að gleyma.

Ég tek myndir til að skapa.

Ég tek myndir til að ögra.

Ég tek myndir til að fagna.

Ég tek myndir til að fegra.

Ég tek myndir til að skemma.

Ég tek myndir til að sýna.

Ég tek myndir til að fela.

Ég tek myndir til að taka myndir!

Leave a reply

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *